Hverju þarf að huga að áður en vefur er settur í loftið? Fyrsti hluti

14.11. 16Anna Signý GuðbjörnsdóttirLestrartími um 3 mínútur

Dagurinn er runninn upp, margra mánaða vinnu er lokið og nú á að setja vefinn í loftið. En gætir þú verið að gleyma einhverju?

Það er ótal margt sem þarf að muna að gera og athuga hvort sé til staðar, áður en hægt er að útskrifa vef. Í hita leiksins þegar viðskiptavinurinn eða jafnvel yfir- og/eða samstarfsmenn eru að setja pressu á að ljúka verkefni, getur verið erfitt að muna öll smáatriðin sem þurfa að vera í lagi á vefnum.

Það getur því verið gott að hafa gátlista við höndina til að minna á allt sem þarf að gera áður en það er formlega hægt að ljúka verkefni. Við hjá TM Software höfum þróað ítarlegan gátlista sem við förum yfir í hvert sinn sem við setjum vef í loftið. Okkur hefur fundist gott og gagnlegt að fara yfir listann og höfum því ákveðið að deila listanum með ykkur í nokkrum bloggfærslum.

Hefur vefurinn verið prófaður í helstu vöfrum og tækjum?

Nauðsynlegt er að prófa vefinn í a.m.k. Google Chrome, Mozilla Firefox, Safari og Internet Explorer. Einnig á að prófa í snjallsímum, bæði IOS og Android sem og í spjaldtölvum.

Gott er að skoða vefmælingar (ef þau gögn eru til) en þar sjást hvaða vafra notendur vefsins nota mest. Gott er að miða við að vefurinn virki eins í þessum vinsælustu vöfrum og tækjum.

Eru slóðir vefsíðunnar lesanlegar og eru engin sértákn notuð?

Slóðirnar eiga að vera lýsandi og það á ekki að nota nein sértákn né íslenska stafi í vefslóðum. Gott er að venja sig líka á að nota bandstrik (þetta-er-bandstrik) í staðinn fyrir undirstrik (þetta_er_undirstrik) því að Google og aðrar leitarvéla túlka ekki undirstrik. Sem dæmi má nefna að „flottur_vefur" er „flotturvefur" hjá Google, en „flottur-vefur" er „flottur vefur".

Dæmi:

  • http://www.vefur.is/god-rad-um-vefi
  • http://www.vefsida.is/um-okkur

Hafa allar síður sérstakt HTML title tag sem inniheldur mikilvægustu lykilorð hverrar síðu og nafn fyrirtæksins/vefsins aftast?

Mikilvægt er að hver einasta síða á vefnum sé með lýsandi title tag og gott er að hafa nafn fyrirtækisins/stofnunarinnar/vefsins aftast. Title tag'ið er það sem birtist í vafraglugganum efst í vafranum þegar vefurinn er opnaður og hefur því áhrif á leitarvélabestun sem og aðgengismál.

Dæmi:

  • <title>Góð ráð um vefi - vefur.is</title>
  • <title>Um okkur - Vefsíða</title>

Er viðeigandi meta description fyrir hverja síðu á vefnum?

Meta description er stutt (helst ekki lengri en 160 stafir) lýsing á hverri síðu. Gott er að hugsa þessa lýsingu út frá leitarvélabestun og skrifa greinagóða en hnitmiðaða lýsingu.

Dæmi:

  • <meta name="description" content="Margt þarf að hafa í huga við vefhönnun og þróun. Í þessari grein förum við yfir nokkur góð ráð um vefi með nytsamlegum dæmum.">
  • <meta name="description" content="Vefsíða - Framúrskarandi vefstofa sem sérhæfir sig í að hanna og þróa vefi fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum.">

Er document language á öllum síðum á vefnum?

Document language er nauðsyn á hverri síðu, en það skilgreinir hvaða tungumáli síðan er á og er mikilvægt fyrir aðgengi og þá sérstaklega þá sem nota skjálesara.

  • Ef það er einungis verið að nota HTML er nóg að skrifa <html lang="is"> í head á síðunum.
  • Ef það er aftur á móti verið að nota XML og/eða XHTML þá er betra að hafa: <html lang="is" xml:lang="is" xmlns="http://www.w3.org/1999/xhtml"> í head.

Þessi fimm atriði eru einungis hluti af vef gátlistanum okkar. Fylgstu með á næstum vikum, en við munum halda áfram að birta fleiri atriði úr gátlistanum okkar góða.

 

Höfundur

Anna Signý Guðbjörnsdóttir
 

Anna Signý Guðbjörnsdóttir

Anna Signý er sérfræðingur í notendaupplifun & nytsemi hjá Ferðalausnum TM Software. Anna hóf störf hjá TM Software í mars 2013 en sama ár útskrifaðist hún með MSc gráðu í Digital Design og Communication með sérsvið í UX og usability frá IT háskólanum í Kaupmannahöfn.

Anna situr í stjórn SVEF og kennir Vefmiðlun í HÍ.

Verið velkomin á póstlistann okkar