Áramótaheit ferðafrömuðarins

12.01. 17Sigurlaug SturlaugsdóttirLestrartími um 2 mínútur

Í byrjun nýs árs er gott fyrir ferðafrömuði að rýna árið framundan. Samkvæmt farþegaspá Isavia fyrir árið 2017 munu erlendir farþegar verða um 2.241 þúsund, sem er fjölgun um 24,7% á milli ára. Er vefurinn þinn tilbúinn?

1. Er vefurinn nógu hraður?

Þolinmæði notenda fer stöðugt minnkandi. 40% kaupenda fara annað ef þeir þurfa að bíða lengur en í 3 sekúndur eftir því að vefurinn hlaðist upp. Auk þess sem einn af hverjum tveimur notendum ætlast til þess að vefsíða hlaðist upp á innan við 2 sekúndum.

Samkvæmt rannsóknum Google frá september 2016 þá voru vefir að meðaltali 19 sekúndur að hlaðast upp í snjallsíma með 3G tengingu en 77% vefja voru lengur en 10 sekúndur að hlaðast upp. Það er því ljóst að hægt er að gera mun betur í þessum málum.

2. Er vefurinn öruggur?

Https er málið árið 2017. Í janúar byrjaði Google Chrome (útg. 56) að merkja allar http síður í vefslóðarreitnum (e. "address bar") sem ótraustar (e. "non-secure"). Með þessari merkingu vill Google gera notendur enn meðvitaðri um öryggi á vefnum þar sem http síður tryggja ekki öryggi gagna.

En https síður eru ekki bara öruggari, þær eru líka hraðari og geta notað nýjustu viðbæturnar sem í boði eru í vafranum.

3. Svara leitarniðurstöður vefsins spurningum notenda?

Þegar notendur vilja vita, fara, gera eða kaupa (e. “micro-moments”) þá taka þeir upp snjallsímana og leita að svarinu. Það er því mikilvægt að búið sé að greina hvaða verkefni (e. “top tasks”) notendur eru komnir inn á vefinn til að leysa. Þegar leitarniðurstöður svara spurningum notenda eru þeir fljótari að taka ákvarðanir en 60% notenda telja að viðeigandi leitarniðurstöður geri þeim kleift að ákveða sig fyrr.

4. Virkar vefurinn þinn í snjallsíma?

Í fyrra uppfærði Google reiknirit (e. “algorithms”) sín svo að leitarniðurstöður í snjallsímum gæfu skalanlegum vefjum aukið vægi. Þessi breyting var gerð til að tryggja notendum leitarniðurstöður sem væru bestaðar fyrir snjallsíma. Vefir sem virka ekki í snjallsímum eru því ekki eins sýnilegir í leitarniðurstöðum Google.

Hvernig kemur vefurinn þinn út?

Vilt þú vita stöðuna á vefnum þínum? Farðu á testmysite.thinkwithgoogle.com og athugaðu málið.

Niðurstöðurnar sýna:

  • Hversu vel vefurinn hentar snjallsímum (e. “mobile-friendliness”).
  • Hraða vefsins er í snjallsíma (e. “mobile speed”).
  • Hraða vefsins í borðtölvu (e. “desktop speed”).

Google gefur hverju atriði einkunn á bilinu 0 til 100 auk þess sem talið er upp hvað er að virka vel og hvað illa á vefnum. Einnig er hægt er að fá ókeypis skýrslu senda í tölvupósti með nákvæmari lýsingum á því sem betur má fara.

Við hvetjum alla ferðafrömuði til að athuga stöðuna á vefjum sínum en 70% ferðamanna leita að ferðatengdum upplýsingum í snjallsímunum sínum. 

Lesa meira: Skipuleggja ferðalagið í snjallsímanum 

Tags:Google

Höfundur

Sigurlaug Sturlaugsdóttir
 

Sigurlaug Sturlaugsdóttir

Sigurlaug er vefráðgjafi hjá Ferðalausnum TM Software. Hún hóf störf hjá TM Software 1. júní 2012 en hefur starfað við vefmál frá árinu 2001. Sigurlaug er með MA-gráðu í ensku frá Háskóla Íslands.

Sigurlaug bloggar um hinar ýmsu hliðar veflausna, en þar má nefna vefþróun, vefumsjón, efnisumsýslu, upplifun notenda (UX) og notendaviðmót (UI).

Verið velkomin á póstlistann okkar