Virgin Atlantic býður betri þjónustu með nýsköpun og nýjustu tækni

10.02. 17Sigurlaug SturlaugsdóttirLestrartími um 3 mínútur

Frumkvöðullinn og viðskiptajöfurinn Richard Branson hefur verið viðloðandi ferðabransann síðan árið 1984 en þá stofnaði hann Virgin Atlantic flugfélagið.

Flugfélag verður til

En af hverju stofnaði Richard Branson flugfélag? Hann var á ferðalagi og var staddur í Púertó Ríkó á leiðinni til Bresku Jómfrúreyjanna, eyjaklasa í Karabíska hafinu.

Þar sem svo fáir farþegar voru bókaðir í flugið frá Púertó Ríkó ákvað flugfélagið að fella það niður. Richard, og hinir farþegarnir, voru því strandaglópar í Púertó Ríkó.

En Richard ætlaði sér á leiðarenda og eftir nokkur símtöl hafði honum tekist að leigja sér flugvél. Hann fékk svo lánaða krítartöflu og í gríni skrifaði hann “Virgin Airlines” efst á töfluna. Hann bæti svo við “Flug aðra leiðina til Bresku Jómfrúreyjanna - 39 dollarar”. Svo hafði hann upp á öllum farþegunum sem höfðu verið skráðir í fyrra flugið og seldi þeim far.

Þar með var Richard kominn á bragðið. Hann ákvað að taka til sinna ráða og stofna flugfélag sem legði áherslu á góða þjónustu og nýtti sér nýsköpun til að bæta upplifun farþeganna. Hann hringdi í Boeing, keypti 747 flugvél og Virgin Atlantic flugfélagið varð formlega til.

Fyrsta flug félagsins var farið þann  22. júní 1984, frá London til Newark.

Bæta þjónustuna með nýjungum

Virgin Atlantic hefur frá upphafi lagt áherslu á að bæta upplifun farþega sinna, hvort sem er um borð eða á flugvellinum.

Hér eru fimm dæmi um hvernig flugfélagið nýtti sér nýjustu tækni til að besta þjónustu sína við farþega:

1) Afþreyingarefni fyrir alla farþega

Árið 1991 setti Virgin Atlantic upp skjái í hvert sætisbak í öllum farrýmum og varð þar með fyrst allra flugfélaga til að bjóða upp afþreyingarefni fyrir alla farþega.

2) Gjörbreyting á fyrsta farrými

Árið 2003 fékk flugfélagið hönnunarhúsið PearsonLloyd til að hanna fyrir sig Upper Class Suite, sæti/rúm og umhverfið á fyrsta farrými. Hönnun PearsonLloyd vann til fjölda verðlauna, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, enda gjörbylti fyrirtækið útliti hins hefðbundna farþegarýmis.

3) Ógleymanleg upplifun í Clubhouse setustofunni

Árið 2006 opnaði Virgin Atlantic setustofu, svokallað Clubhouse, á Heathrow flugvelli í London. Á meðal nýjunga sem boðið var upp á í setustofunni var bar, hárgreiðslustofa, heilsulind, franskur veitingastaður og leikherbergi. Setustofan átti að vera staður þar sem framúrskarandi þjónusta og fjölbreytt úrval afþreyingar gerði dvölina þar að einstakri upplifun. Í dag eru 11 Clubhouse staðsett á flugvöllum um allan heim, þar á meðal í New York, Boston, Los Angeles, Hong Kong og Jóhannesarborg.

4) Persónulegri þjónusta við innritun með Google gleraugum og Sony snjallúrum

Árið 2014 fengu starfsmenn á Heathrow flugvellinum, sem sáu um innritun farþega á fyrsta farrými, Google gleraugu og Sony snjallúr svo þeir gætu nálgast upplýsingar um hvern og einn farþega áður en hann var innritaður. Með þessu varð innritunarþjónustan sérsniðin að hverjum farþega þar sem sem starfsfólkið gat heilsað farþeganum með nafni og gefið honum upp margskonar upplýsingar tengdar fluginu hans og fyrirhuguðum áfangastað.

5) Persónulegar tilkynningar beint í snjallsímann

Árið 2015 nýtti Virgin Atlantic sér iBeacon tæknina frá Apple og Apple Passbook til að senda persónulegar tilkynningar í snjallsíma farþega, á fyrsta farrými, sem fóru um Heathrow flugvöllinn. Sem dæmi um tilkynningar sem farþegarnir fengu voru flugupplýsingar auk sérvaldra tilboða frá samstarfsaðilum flugfélagsins.

Eins og sjá má leggur Richard Branson og starfsfólk hans áherslu á að bjóða upp á góða þjónustu og leitast við að finna nýjar leiðir og nýta nýja tækni til að bæta upplifun viðskiptavina sinna.

 

Höfundur

Sigurlaug Sturlaugsdóttir
 

Sigurlaug Sturlaugsdóttir

Sigurlaug er vefráðgjafi hjá Ferðalausnum TM Software. Hún hóf störf hjá TM Software 1. júní 2012 en hefur starfað við vefmál frá árinu 2001. Sigurlaug er með MA-gráðu í ensku frá Háskóla Íslands.

Sigurlaug bloggar um hinar ýmsu hliðar veflausna, en þar má nefna vefþróun, vefumsjón, efnisumsýslu, upplifun notenda (UX) og notendaviðmót (UI).

Verið velkomin á póstlistann okkar