Betri matarupplifun um borð

03.03. 17Sigurlaug SturlaugsdóttirLestrartími um 2 mínútur

Sífellt fleiri flugfélög leita leiða til að bæta upplifun farþega sinna um borð. Mörg þeirra telja að tækifæri liggi í breytingum á þeim mat og drykk sem boðið er upp á í flugi.

Meira úrval af snarli

Í byrjun árs 2016 prófaði bandaríska flugfélagið Delta Air Lines að bjóða upp á meira úrval af snarli og fleiri skammtastærðir.

Þessar breytingar hlutu gífurlega góðar undirtektir, bæði hjá farþegum og starfsmönnum, og nýtt og fjölbreyttara úrval af snarli leit dagsins ljós í flugvélum félagsins í desember í fyrra.

Ókeypis máltíðir í innanlandsflugi

Í kjölfarið prófaði Delta að bjóða farþegum sínum upp á máltíð þegar flogið var frá New York til Los Angeles og San Francisco. Eftir sex vikna prófanir sýndu niðurstöðurnar að ánægja farþeganna með flugferðina var mun meiri en þegar enginn matur var í boði. 

Delta ákvað því í framhaldinu að bjóða farþegum sínum upp á ókeypis máltíð á 12 lengstu áætlunarleiðum sínum í innanlandsflugi. Flugfélagið stefnir að því að innleiðingunni verði lokið þann 24. apríl næstkomandi.

Framreiðsla máltíða skiptir máli

Nýlega prófaði Delta að bjóða upp á mismunandi útgáfur af sömu máltíðinni. Breytingarnar fólust ekki í matnum sjálfum heldur í umbúðunum og borðbúnaði.

Það ætti ekki að koma á óvart að maturinn sem var fallega framreiddur bragðaðist betur að mati farþeganna. Félagið ætlar því að uppfæra umbúðir og borðbúnað á viðskiptafarrými og fyrsta farrými.

Vilja bæta upplifun farþega um borð

Delta vill með þessum breytingum ekki bara sýna fram á að félagið hlusti á viðskiptavini sína og fari eftir ábendingum þeirra um hvað betur má fara. Heldur einnig að félaginu sé umhugað um að upplifun farþega sinna sé eins og best verður á kosið og að félagið leggi metnað sinn í að gera vel og bæta það sem betur má fara um borð.

Höfundur

Sigurlaug Sturlaugsdóttir
 

Sigurlaug Sturlaugsdóttir

Sigurlaug er vefráðgjafi hjá Ferðalausnum TM Software. Hún hóf störf hjá TM Software 1. júní 2012 en hefur starfað við vefmál frá árinu 2001. Sigurlaug er með MA-gráðu í ensku frá Háskóla Íslands.

Sigurlaug bloggar um hinar ýmsu hliðar veflausna, en þar má nefna vefþróun, vefumsjón, efnisumsýslu, upplifun notenda (UX) og notendaviðmót (UI).

Verið velkomin á póstlistann okkar