Lendingarsíður fyrir ferðavefi

31.05. 17Sigurlaug SturlaugsdóttirLestrartími um 2 mínútur

Lendingarsíður eru oft endapunktur auglýsinga- og eða markaðsherferða þar sem verið er að auglýsa ákveðna vöru eða þjónustu. 

Lendingarsíður eru því vefsíður sem hafa eitt markmið, ein skilaboð og eina aðgerð

Hér á eftir verður farið yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga fyrir lendingarsíður á ferðaþjónustuvefjum.

1. Eitt markmið

Hver lendingarsíða ætti bara að hafa eitt markmið, til dæmis að selja hvalaskoðunarferð.

2. Ein skilaboð

Æskilegt er að fyrirsögn lendingarsíðunnar sé sú sama og í auglýsingunni sem er notuð til að vísa á síðuna.

Texti lendingarsíðunnar á að vera stuttur og hnitmiðaður, og skrifaður út frá þörfum notandans. Mikilvægustu upplýsingarnar eiga að koma fyrst.

Dæmi:

  • Hápunktar í ferð: 4-6 atriði sem almennt má telja hápunkta ferðar og upplifunar.
  • Stutt lýsing á ferð: Þrjár til fjórar setningar sem fanga athygli notandans.
  • Ferðalýsing: Eiginleg lýsing ferðar. Stuttar hnitmiðaðar setningar. Notið millifyrirsagnir svo auðvelt sé að skanna textann.

3. Ein aðgerð

Aðgerðin (e. call to action) ætti að vera áberandi á lendingarsíðunni og birtast í fyrstu skjáfyllu.

4. Ekki birta óþarfa efni

Til að styðja við skilaboð lendingarsíðunnar er æskilegt að fjarlægja efni sem vísar notandanum af síðunni. Til dæmis leiðarkerfi (e. top menu) og fót (e. footer) síðunnar. 

5. Sýna upplifunina

Fallegar myndir lýsa upplifuninni af áfangastaðnum, gistingunni og því sem er í boði í ferðinni. Myndbönd sem sýna brot úr ferðinni og hvernig upplifun má búast við, ýta undir sölu á lendingarsíðum.

6. Birta umsagnir viðskiptavina

Notendur treysta umsögnum frá öðrum viðskiptavinum 12x meira en textalýsingunni frá fyrirtækinu.

Birting umsagna frá viðskiptavinum er því góð leið til að auka sölu en 63% notenda versla frekar á vef sem birtir umsagnir og 61% notenda lesa umsagnirnar áður en þeir kaupa. Að meðaltali auka umsagnir sölu um 18%.

Hér hefur verið fjallað um nokkur af þeim atriðum sem gott er að hafa í huga þegar settar eru upp lendingarsíður.

Ýmislegt fleira er hægt að gera til að besta lendingarsíður en eitt af því sem margir telja ómissandi eru notendaprófanir.

Höfundur

Sigurlaug Sturlaugsdóttir
 

Sigurlaug Sturlaugsdóttir

Sigurlaug er vefráðgjafi hjá Ferðalausnum TM Software. Hún hóf störf hjá TM Software 1. júní 2012 en hefur starfað við vefmál frá árinu 2001. Sigurlaug er með MA-gráðu í ensku frá Háskóla Íslands.

Sigurlaug bloggar um hinar ýmsu hliðar veflausna, en þar má nefna vefþróun, vefumsjón, efnisumsýslu, upplifun notenda (UX) og notendaviðmót (UI).

Verið velkomin á póstlistann okkar