4 tól fyrir aðgengilegar litasamsetningar

07.06. 17Guðný Þórfríður MagnúsdóttirLestrartími um 2 mínútur

Allir sem koma að vefhönnun ættu að gæta þess að texti sé vel læsilegur fyrir alla notendur. Samsetning lita skiptir miklu máli, þar sem litamismunur milli texta og bakgrunns (e. contrast) verður að vera nægilega mikill til að tryggja það að sjónskertir og litblindir geti lesið textann með góðu móti. WCAG 2.0 aðgengisstaðallinn hefur skilgreint ákveðið lágmarkshlutfall milli lita á bakgrunni og texta til að hann teljist læsilegur fyrir sem flesta.

Miðað er við hlutfallið 4.5:1 fyrir venjulega stærð á texta og 3:1 fyrir stórt letur (leturstærð 18 eða 14 feitletrað).

Þetta hlutfall er reiknað út frá litakóðum og það eru til ýmsar reiknivélar sem hjálpa til við það.

Color Contrast Checker

Ein af þessum reiknivélum er Color Contrast Checker frá Web AIM (Web Accessibility in Mind).

Vélin reiknar út hlutfallið og gefur jafnframt til kynna hvort samsetningin stenst eða fellur. Athugið þó að miða aðeins við AA-stigið, en almennt er miðað við það stig þegar kemur að aðgengi á netinu.

Color Contrast Checker

Contrast Ratio

Önnur reiknivél sem jafnframt gefur sýnidæmi með texta, er Contrast Ratio sem Lea Verou bjó til. Talan í miðjunni gefur síðan til kynna hversu gott hlutfallið er og hvort það stenst lágmarkskröfur.

Contrast Ratio 

Color Contrast Analyser

Color Contrast Analyser frá The Paciello Group er forrit sem reiknar út hlutfallið líkt og áðurnefnd tól, en það býður að auki upp á litaplokkara (e. eyedropper tool) til að velja litina af skjánum. Þetta er hentugt ef númerið á litunum er ekki vitað.

Color Contrast Analyser 

Color Safe

Það getur verið tímafrekt að prófa sig áfram með hvaða litir passa saman. Ef það er fyrirfram vitað hvernig texti eða bakgrunnur á að vera á litinn og hvaða leturstærð er notuð, þá er hægt að nýta sér tól eins og Color Safe eftir Donielle Berg og Adrian Rapp.

Color Safe

Það gefur þér litaspjald með öllum þeim litum sem passa við bakgrunninn, svo að samsetningin standist WCAG kröfur.

Color Safe

 

Góður litamismunur milli texta og bakgrunns getur haft mikla þýðingu fyrir marga notendur. Ekki einungis sjónskerta og litblinda, heldur einnig öllum þeim sem þurfa að lesa á skjá í mikilli birtu eða almennt þar sem skilyrði til að lesa af skjánum eru ekki ákjósanleg.

Sé þetta haft í huga er búið að stíga stórt skref í átt að góðu aðgengi fyrir alla notendur.

 Meira um vefhönnun og aðgengi má finna hér.

 

Höfundur

Guðný Þórfríður Magnúsdóttir
 

Guðný Þórfríður Magnúsdóttir

Guðný er vefráðgjafi og aðgengissérfræðingur hjá Ferðalausnum TM Software. Guðný hóf störf hjá TM Software í september 2015. Hún er með MSc gráðu í Digital Design og Communication frá IT-háskólanum í Kaupmannahöfn, með áherslu á User Centered Design.

Verið velkomin á póstlistann okkar