Spjallbottar aðstoða viðskiptavini

06.07. 17Sigurlaug SturlaugsdóttirLestrartími um 2 mínútur

Spjallbotti (e. chatbot) er forrit sem notar gervigreind til að svara spurningum og framkvæma ákveðin verkefni, oftast í gegnum spjallforrit eða raddleit.

Fjöldi fyrirtækja nýtir sér spjallbotta í dag en á meðal fyrirtækja í ferðabransanum sem nota spjallbotta eru ferðaleitarvélin Skyscanner og hollenska flugfélagið KLM

Skyscanner spjallbottinn finnur ódýrustu flugsætin

Skyscanner hefur í tæpt ár boðið notendum sínum upp á þjónustu spjallbotta í gegnum Facebook Messenger. Hægt er að nota Messenger smáforritið (e. app) í snjallsímanum eða fara á Facebook síðu Skyscanner og senda skilaboð þar.

Skyscanner spjallbottinn finnur ódýrustu flugsætin, mælir með áfangastöðum og býr yfir fjölda flugtengdra upplýsinga, eins og í hvaða mánuði er ódýrast að fljúga og á hvaða vikudegi flugsæti eru ódýrust.

Ef verið er að leita að flugi þá setur notandinn einfaldlega inn borgina sem hann ferðast frá og Skyscanner spjallbottinn finnur ódýrustu flugsætin sem eru í boði en einnig er hægt er að velja áfangastað og sjá ódýrustu verðin fyrir þá flugleið. Spjallbottinn birtir viðeigandi upplýsingar um þau flug sem finnast auk tengla sem hægt er að smella á til að bóka eða til að fá nánari upplýsingar á vef Skyscanner.

Skyscanner Chatbot

KLM notar spjallbotta fyrir flugupplýsingar

Fyrir tveimur árum fór flugfélagið KLM að nota spjallbotta til að senda flugupplýsingar til viðskiptavina í gegnum Messenger. Ef þessi möguleiki er valinn þegar bókað er flug fær viðskiptavinurinn sendar allar upplýsingar tengdar fluginu í gegnum Messenger. Má þar nefna staðfestingu á bókun, upplýsingar um innskráningu, brottfararspjaldið, seinkanir o.s.frv.

Einnig geta viðskiptavinir sent fyrirspurnir í gegnum Messenger en samfélagsmiðladeild KLM svarar um 15.000 fyrirspurnum á 12 tungumálum í hverri viku.

Spjallbottar eru komnir til að vera

Spjallbottar eru góður kostur fyrir aukna þjónustu fyrir viðskiptavini. Spjallbottarnir eru til staðar allan sólarhringinn, þeir svara viðskiptavinum strax og eiga auðvelt með að leysa úr einföldum fyrirspurnum, eins og leit að flugi eða gistingu.

Eftir því sem tækninni fleygir fram þá munu spjallbottar eiga auðveldara með að leysa úr flóknari fyrirspurnum og talið er að árið 2020 muni spjallbottar svara meirihluta þeirra fyrirspurna sem berast til fyrirtækja.

Höfundur

Sigurlaug Sturlaugsdóttir
 

Sigurlaug Sturlaugsdóttir

Sigurlaug er vefráðgjafi hjá Ferðalausnum TM Software. Hún hóf störf hjá TM Software 1. júní 2012 en hefur starfað við vefmál frá árinu 2001. Sigurlaug er með MA-gráðu í ensku frá Háskóla Íslands.

Sigurlaug bloggar um hinar ýmsu hliðar veflausna, en þar má nefna vefþróun, vefumsjón, efnisumsýslu, upplifun notenda (UX) og notendaviðmót (UI).

Verið velkomin á póstlistann okkar