Leitarvélabestun - 8 hollráð til að hjálpa vefsíðunni þinni að klífa hærra á Google

06.09. 13TM Software

Það er margt sem þarf að hafa í huga til að efni skari fram úr í leitarniðurstöðum á Google. Hér eru nokkur hollráð sem hjálpa vefsíðunni þinni að klífa hærra á Google. 

1. Réttu orðin

Það er mikilvægt að greina og nota á vefsíðunni þau orð og orðasamsetningar sem markhópur þinn notar við leit að vöru eða þjónustu sem þú býður. Hægt er að nota Google Keyword Tool til að greina notkun á ákveðnum orðum og sjá tengd orð. Réttu orðin hjálpa þér að vera meira áberandi á leitarvélunum.

2. Titillinn

Það er mikilvægt að hafa viðeigandi leitarorð í titli vefsíðunnar (í HTML kóðanum). Titillinn þarf að vera einstakur fyrir hverja síðu. Hann þarf líka að vera áhugaverður til að auka líkurnar á að fólk smelli á hlekkinn í leitarniðurstöðunum.

3. Hlekkir

Hlekkir yfir á þína síðu frá hátt metnum vefsíðum hjálpa þér að klifra hærra í leitarniðurstöðum. Gott er að vinna markvisst að því að fjölga hlekkjum á vefsíðuna og bæta gæði þeirra.

4. Efni sem fólk vill deila

Það er gott að birta reglulega nýtt efni (greinar, myndir, myndbönd...) sem fólk vill deila með öðrum. Bæði svo fólk deili því á samfélagsmiðlum (Facebook, Twitter...) en líka til að fá fleiri hlekki inn á vefsíðuna þína.

5. Notendavæn síða

Vel skipulagt og notendavænt leiðarkerfi tryggir að bæði leitarvélar og notendur eiga auðveldara með að finna efni vefsíðunnar.

6. Hraði

Hraði vefsíðunnar skiptir miklu máli fyrir bæði notendur og sýnileika á leitarvélum. Oftast eru það fjöldi og þyngd mynda sem vega þyngst í svartímanum. Þú getur stytt svartímann með því að þjappa myndum í vefútgáfu, sameina bakgrunnsmyndir í sprite, nota proxy header cache og CDN (content delivery network) til að þjóna dreifðum mörkuðum.

7. Tenglapróf

Framkvæmdu regluleg tenglapróf á síðuna þína til að passa að hún innihaldi ekki brotna tengla. Brotnir tenglar eru merki um léleg gæði vefsíðu og hafa slæm áhrif á sýnileika vefsíðunnar þinnar á leitarvélum.

8. Spilaðu samkvæmt leikreglunum

Ekki freistast til að nota vafasamar aðferðir sem mögulega færa þér ávinning til skamms tíma. Til að byggja upp gott vörumerki þarftu að huga að langtímaplaninu.

Vanessa Fox - vinnustofa í leitarvélabestun 11. október 2013.

Höfundur

Verið velkomin á póstlistann okkar