image description

HEKLA - Heilbrigðisnet

Hekla er lokað rafrænt samskiptanet til sendinga á heilbrigðisgögnum á milli aðila í heilbrigðissviði. Mikið hagræði er af rafrænum sendingum á heilbrigðisgögnum yfir Heklu. Rafrænar sendingar auka öryggi sjúklinga, bæta þjónustuna, spara tíma og fjármuni. Þúsundir skeyta eru send yfir Heklu á degi hverjum. Meðal þeirra eru meira en 1,3 milljónir lyfseðla, 200.000 læknabréfa og 13.000 umsókna um lyfjaskírteini.

Hekla heilbrigðisnet hefur verið í notkun á Íslandi frá 2007. Í dag eru allar heilbrigðisstofnanir landsins, öll apótek, Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar Íslands, Embætti landlæknis og margir aðrir tengdir netinu. Hekla er eina almenna heilbrigðisnetið á Íslandi og gerir mögulegt að senda rafræn gögn á milli ólíkra hugbúnaðarkerfa með öruggum, stöðluðum og auðveldum hætti.

Til að byrja með var Hekla eingöngu notuð til sendinga á rafrænum lyfseðlum og til samskipta við miðlægan bólusetningagrunn Embættis landlæknis. Síðan þá hafa bæst við fjöldi þjónusta og eru þær komnar vel á þriðja tug. Meðal þeirra eru sendingar lækna- og hjúkrunarbréfa, sendingar á beiðnum og svörum vegna myndgreininga og rannsókna, rauntímaeftirlit sóttvarnalæknis með greiningum og úrlausnum, sending fæðingatilkynninga og beiðni um kennitölu frá þjóðskrá og sending umsókna um lyfjaskírteini.

Nýjasta þjónusta Heklu er samtenging allra Sögu sjúkraskrárkerfa á heilbrigðisstofnunum landsins. Þetta er gríðarlega stór áfangi sem heilbrigðislausnasvið hefur unnið að lengi og tryggir læknum aðgang að allri sjúkraskrá sjúklings óháð skráningarstað. Með þessari lausn má segja að komin sé ein sjúkraskrá í öllu landinu og læknir á heilsugæslunni í Reykjavík getur séð gögn sem voru skráð á Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilsugæslustöðinni á Höfn eða öðrum heilbrigðisstofnunum.

image description

Verið velkomin á póstlistann okkar