Hverju þarf að huga að áður en vefur er settur í loftið? Fyrsti hluti

14.11. 16Anna Signý GuðbjörnsdóttirLestrartími um 3 mínútur

Dagurinn er runninn upp, margra mánaða vinnu er lokið og nú á að setja vefinn í loftið. En gætir þú verið að gleyma einhverju?

Það er ótal margt sem þarf að muna að gera og athuga hvort sé til staðar, áður en hægt er að útskrifa vef. Í hita leiksins þegar viðskiptavinurinn eða jafnvel yfir- og/eða samstarfsmenn eru að setja pressu á að ljúka verkefni, getur verið erfitt að muna öll smáatriðin sem þurfa að vera í lagi á vefnum.

Það getur því verið gott að hafa gátlista við höndina til að minna á allt sem þarf að gera áður en það er formlega hægt að ljúka verkefni. Við hjá TM Software höfum þróað ítarlegan gátlista sem við förum yfir í hvert sinn sem við setjum vef í loftið. Okkur hefur fundist gott og gagnlegt að fara yfir listann og höfum því ákveðið að deila listanum með ykkur í nokkrum bloggfærslum.

Hefur vefurinn verið prófaður í helstu vöfrum og tækjum?

Nauðsynlegt er að prófa vefinn í a.m.k. Google Chrome, Mozilla Firefox, Safari og Internet Explorer. Einnig á að prófa í snjallsímum, bæði IOS og Android sem og í spjaldtölvum.

Gott er að skoða vefmælingar (ef þau gögn eru til) en þar sjást hvaða vafra notendur vefsins nota mest. Gott er að miða við að vefurinn virki eins í þessum vinsælustu vöfrum og tækjum.

Eru slóðir vefsíðunnar lesanlegar og eru engin sértákn notuð?

Slóðirnar eiga að vera lýsandi og það á ekki að nota nein sértákn né íslenska stafi í vefslóðum. Gott er að venja sig líka á að nota bandstrik (þetta-er-bandstrik) í staðinn fyrir undirstrik (þetta_er_undirstrik) því að Google og aðrar leitarvéla túlka ekki undirstrik. Sem dæmi má nefna að „flottur_vefur" er „flotturvefur" hjá Google, en „flottur-vefur" er „flottur vefur".

Dæmi:

  • http://www.vefur.is/god-rad-um-vefi
  • http://www.vefsida.is/um-okkur

Hafa allar síður sérstakt HTML title tag sem inniheldur mikilvægustu lykilorð hverrar síðu og nafn fyrirtæksins/vefsins aftast?

Mikilvægt er að hver einasta síða á vefnum sé með lýsandi title tag og gott er að hafa nafn fyrirtækisins/stofnunarinnar/vefsins aftast. Title tag'ið er það sem birtist í vafraglugganum efst í vafranum þegar vefurinn er opnaður og hefur því áhrif á leitarvélabestun sem og aðgengismál.

Dæmi:

  • <title>Góð ráð um vefi - vefur.is</title>
  • <title>Um okkur - Vefsíða</title>

Er viðeigandi meta description fyrir hverja síðu á vefnum?

Meta description er stutt (helst ekki lengri en 160 stafir) lýsing á hverri síðu. Gott er að hugsa þessa lýsingu út frá leitarvélabestun og skrifa greinagóða en hnitmiðaða lýsingu.

Dæmi:

  • <meta name="description" content="Margt þarf að hafa í huga við vefhönnun og þróun. Í þessari grein förum við yfir nokkur góð ráð um vefi með nytsamlegum dæmum.">
  • <meta name="description" content="Vefsíða - Framúrskarandi vefstofa sem sérhæfir sig í að hanna og þróa vefi fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum.">

Er document language á öllum síðum á vefnum?

Document language er nauðsyn á hverri síðu, en það skilgreinir hvaða tungumáli síðan er á og er mikilvægt fyrir aðgengi og þá sérstaklega þá sem nota skjálesara.

  • Ef það er einungis verið að nota HTML er nóg að skrifa <html lang="is"> í head á síðunum.
  • Ef það er aftur á móti verið að nota XML og/eða XHTML þá er betra að hafa: <html lang="is" xml:lang="is" xmlns="http://www.w3.org/1999/xhtml"> í head.

Þessi fimm atriði eru einungis hluti af vef gátlistanum okkar. Fylgstu með á næstum vikum, en við munum halda áfram að birta fleiri atriði úr gátlistanum okkar góða.

 

Höfundur

Anna Signý Guðbjörnsdóttir
 

Anna Signý Guðbjörnsdóttir

Anna Signý er viðmótssérfræðingur og ráðgjafi hjá Ferðalausnum TM Software. Anna hóf störf hjá TM Software í mars 2013 en sama ár útskrifaðist hún með MSc gráðu í Digital Design og Communication með sérsvið í UX og usability frá IT háskólanum í Kaupmannahöfn. 

Verið velkomin á póstlistann okkar